Minnisvarði og heimildarmynd um mannskaðaveðrið við Norðurland 1963

Þann 9. apríl 2013 verða nákvæmlega 50 ár liðin frá því mannskætt fárviðri varð 11 sjómönnum norðanlands að aldurtila, þar af sjö Dalvíkingum. Sjómönnunum frá Dalvík verður af þessu tilefni reistur minnisvarði fremst á norðurgarði hafnarinnar á Dalvík og unnið er að heimildarmynd um sjóslysin.

Aðstandendur þessa verkefnis eru þrír: Haukur Sigvaldason, María Jónsdóttir og Stefán Loftsson.

Haukur Sigvaldason er sonur Sigvalda Stefánssonar, eins fórnarlamba páskahretsins. Haukur var fimm ára þegar þetta gerðist.

María Jónsdóttir er textílhönnuður frá Árhóli á Dalvík og er nemandi í Margmiðlunarskólanum. Hún átti hugmyndina að því að gera heimildarmynd um sjóslysin miklu. Sú hugmynd átti hins vegar rætur á ská í áformum Hauks um að setja upp minnismerki á Dalvík.

Stefán Loftsson er kvikmyndagerðarmaður og bróðursonur Hauks. Hann annast tæknilega hlið verkefnisins: upptökur, klippingu og eftirvinnslu. Stefán er sem sagt afabarn Sigvalda heitins en fæddist löngu eftir að þessir atburðir áttu sér stað. Hann heiðrar minningu afa síns með vinnu sinni nú. Bræðurnir Stefán og Sigvaldi Loftssynir eiga og reka kvikmyndafyrirtækið Omen. Þeir unnu báðir við upptökur á heimildarmyndinni um Bakka-Baldur ásamt Þorfinni Guðnasyni kvikmyndagerðarmanni.

Alla fréttina má lesa hér.


Heimild: http://svarfdaelasysl.com