Föstudaginn 8. september síðastliðinn kom góð heimsókn í Skagafjörð frá samtökunum Icelandic Roots þar sem meðlimir samtakanna afhentu minnisplatta um forfeður sína sem fóru vestur um höf frá Sauðárkróki í kringum aldamótin 1900.

Þessa dagana ferðast sjálfboðaliðar Icelandic Roots frá Norður Ameríku um Ísland til að fagna 10 ára afmæli samtakanna. Þeir heimsækja mikilvæga sögustaði, hitta félaga sem búsettir eru á Íslandi og setja upp minnisvarða um fólk sem flutti frá nokkrum höfnum á Norður- og Austurlandi.

Minnisplattin stendur á Nöfunum fyrir ofan Sauðárkrók á góðu útsýnissvæði sunnan við kirkjugarðinn. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri, afhjúpaði minnisplattann og þakkaði samtökunum fyrir rausnarlega gjöf.

Icelandic Roots samtökin voru stofnuð árið 2013 en samtökin halda meðal annars utan um gagnagrunn Vestur-Íslendinga www.icelandicroots.com.