Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélagið Hlíðarendi mætast í mjög mikilvægum leik á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn kl. 13:00. Bæði lið eiga góða möguleika að enda í 2. sæti deildarinnar, en gríðarlega mikil barátta er um það sæti. Árangur liðanna í sumar er keimlíkur, en aðeins eitt stig skilur liðin að. KF er í 4. sæti eftir 15 leiki en KH er í 5. sæti eftir 15 leiki. Gengi KH hefur verið heldur lakara í síðustu 5 umferðum, en liðið hefur aðeins sigrað einn leik af síðustu 5. KF hefur hins vegar sigrað fjóra af síðustu fimm leikjum deildarinnar og verið á mikilli siglingu.

Fyrri leikur liðanna fór fram á Valsvellinum, en KH sigraði þar örugglega 3-1. Markahæsti maður KH er Ingólfur Sigurðsson, en hann hefur skorað 7 mörk í 14 deildarleikjum. Hann hefur leikið með mörgum liðum undanfarin ár í Inkassodeildinni og efstu deild. KH hefur skorað 25 mörk í deildinni og hafa 6 markanna komið í fyrri hálfleik, en flest markanna hafa komið þegar líður á síðari hálfleik.  KF hefur skorað 23 mörk í deildinni, og hafa 6 mörk komið í fyrri hálfleik.

Ljubomir Delic og Andri Snær Sævarsson koma úr leikbanni hjá KF en Grétar Áki Bergsson og Halldór Logi Hilmarsson verða báðir í leikbanni í þessum leik.

KF þarf á sigri að halda í þessum leik til að eiga einhverja möguleika á 2. sæti deildarinnar, og þá skiptir stuðningur úr stúkunni miklu máli. Þetta er næstsíðasti heimaleikur liðsins í sumar, en í næstu umferð er útileikur gegn KV og loks heimaleikur gegn Dalvík/Reyni. KF á því þrjá erfiða leiki eftir í þessari toppbaráttu.