Mikil áhersla lögð á lestur í Dalvíkurskóla

Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að læsi er einn af grunnþáttum menntunar og kemur það líkast til engum á óvart því lestur er mikil grundvallarfærni og undirstaða almennrar menntunar. Á þessu skólaári ætlar Dalvíkurskóli að leggja mikla áherslu á grunnþáttinn læsi og er það hluti af innleiðingarferli skólans vegna nýrrar aðalnámskrár.

Læsi er margþætt og felur ekki eingöngu í sér að geta lesið og skrifað. Læsi snýst einnig um að geta nýtt sér fjölbreytta miðla, skilið það sem lesið er, tekið gagnrýna afstöðu til upplýsinga, lesið út úr súluritum, áttað sig á tilfinningum annarra og svo ótal margt fleira.

Í Dalvíkurskóla var ákveðið að leggja mikla áherslu á lestur strax í upphafi skólaársins því skólinn telur brýnt að leita allra leiða til að vekja áhuga nemenda á lestri góðra bókmennta og hvetja þá til að lesa sem mest, einkum þar sem rannsóknir sýna að lestur bókmennta fer minnkandi hjá börnum og unglingum.  Lestur hefur meðal annars góð áhrif á málþroska, orðaforða og málvitund og stækkar heim lesenda, því við lærum til dæmis ýmislegt um samfélög og menningu, setjum okkur í spor annarra og eignumst fyrirmyndir.

Allir árgangar Dalvíkurskóla taka nú þátt í þriggja vikna lestrarverkefni sem kallast Gefum orðum líf og er tvíþætt verkefni. Í fyrsta lagi er þetta lestrarátak þar sem nemendur keppast við að lesa sem mest heima og í skólanum og í öðru lagi fjölbreytt verkefnavinna sem miðar að því að hvetja nemendur og aðra bæjarbúa til lesturs og að gera texta sem sýnilegasta í bæjarfélaginu.

Við lok lestrarverkefnisins munu íbúar Dalvíkurbyggðar geta skoðað og lesið sér til ánægju og fróðleiks alls kyns texta sem komið verður fyrir víðsvegar í bænum og vonandi vekja þeir frekari áhuga hjá fólki til að lesa sér til gagns og yndisauka.

Heimild: dalvikurbyggd.is