Metfjöldi viðvarana í febrúar
Alls gaf Veðurstofa Íslands út 137 viðvaranir vegna veðurs í febrúar mánuði. Aldrei hafa verið gefnar út jafn margar viðvaranir í febrúar frá því að viðvaranakerfið var tekið upp fyrir fimm árum. Rauðar viðvaranir í mánuðinum voru sex, jafn margar og veturinn 2019-2020, en þá dreifðust rauðu viðvaranirnar yfir fleiri spásvæði. Flestar viðvaranir í febrúar voru gefnar út fyrir Vestfirði og Suðurland.
Alls voru 7 viðvaranir fyrir Norðurland eystra og 8 fyrir Strandir og Norðurland vestra.
Viðvörunarkerfið byggir að hluta til á mati á þeim áhrifum sem veður eru talin hafa á samfélagið. Viðvaranirnar túlka því möguleg áhrif veðursins sem gengur yfir landið og fjöldi viðvarana og viðvörunarstig þeirra er því mælikvarði á áhrif veðursins í tilteknum mánuði, en ekki endilega hversu slæmt veðrið var, þó svo að mjög sterk tengsl séu þar á milli.

Heimild: vedur.is