Aldrei hafa fleiri heimsótt Ljóðasetur Íslands á Siglufirði á einu ári frá stofnun þess líkt og í ár. Nú hafa 1330 gestir heimsótt safnið í ár, en metið var áður 1310 gestir sem komu árið 2015. Búast má við því að enn fleiri heimsæki safnið í haust, þar sem skólahópar og Ljóðahátíðin Haustglæður dregur alltaf gesti að. Setrið hefur verið opið í um 200 klukkustundir það sem af er ári, en það er Þórarinn Hannesson sem er forstöðumaður setursins. Stefnt er að því að gestir setursins í ár verði yfir 1500.
Á þessu ári hafa verið nokkrir viðburðir sem hafa hjálpað að ná þessum heimsóknafjölda, en í byrjun árs kom fjöldi breta í heimsókn sem komu með beinu flugi til Akureyrar með Super Break. Eins var fjölbreytt dagskrá um verslunarmannahelgina og komu þá yfir 200 gestir.
Íbúar og gestir í Fjallabyggð eru hvattir til að kíkja við á Ljóðasetrið þegar viðburðir eru þar haldnir.