Menntaskólinn á Tröllaskaga hefst 18. ágúst

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefst þriðjudaginn 18. ágúst klukkan 8:10 og kennt verður að mestu þann dag samkvæmt stundaskrá. Fjarnám hefst eins og venja er á sama tíma. Í nýjum reglum um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er slakað á fjarlægðarmörkum í framhaldsskólum. Nú skal tryggja að hægt sé að viðhalda eins metra bili milli manna í stað tveggja metra sem er almenna reglan. Fyrir nemendur og starfsfólk í MTR þýðir þetta að hægt verður að hefja skólastarf með nokkurn veginn eðlilegum hætti. Hámarksfjöldi í einu sóttvarnarrými er áfram 100 manns.

Mikilvægt er að allir fylgi eins meters reglunni, sótthreinsi borð og snertifleti bæði þegar komið er að þeim og þegar skilið er við. Lögð verður áhersla á sóttvarnir a.m.k. einu sinni á dag. Nemendur skulu í núverandi ástandi ekki fara úr skóm í anddyri heldur vera í þeim og geyma yfirhafnir á stólbökum en minnka notkun á fatahengi eins og unnt er. Hver og einn þarf að leggja áherslu á sínar sóttvarnir, handþvott, fjarlægðarmörk og nota maska þegar kröfur eru gerðar um þá samkvæmt sóttvarnareglum.

Gert er ráð fyrir að mötuneyti skólans verði opið en þar verður gætt sérstaklega vel að sótthreinsun snertiflata og alls búnaðar og jafnframt að fjarlægðarreglunni.

Einstaklingar í hópi nemenda eða starfsmanna sem telja sig hafa málefnalegar ástæður fyrir því að mæta ekki í skólann eru beðnir samkvæmt ákvörðun neyðarstjórnar að hafa samband við Láru Stefánsdóttur, skólameistara.

Frá þessu er greint á vef mtr.is.