Menntabúðir um tækni í skólastarfi á Sauðárkróki

Það var fjölmennur hópur áhugafólks um skólamál sem lagði leið sína í Árskóla á Sauðárkróki síðastliðinn þriðjudag þar sem blásið hafði verið til Menntabúða um tækni í skólastarfi. Menntabúðir er viðburður þar sem fólk kemur saman til þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum. Frumkvöðlar Menntabúða í Skagafirði eru þau Ingvi Hrannar Ómarsson, Margrét Björk Arnardóttir og Kristján Bjarni Halldórsson en þau eiga það sameiginlegt að vera mikið áhugafólk um tækni í skólastarfi og skólamál almennt.

Að þessu sinni var boðið upp á átta málstofur þar sem þátttakendum gafst kostur á að prófa, ræða og upplifa. Í málstofunum var fjallað um Nearpod, vendikennslu, Kahoot, eTwinning, FabLab, tækni í sérkennslu, tækni og tónlist og Ipad með yngri börnum. Málstofurnar voru fjölbreyttar og áhugaverðar og greinilegt að skólafólk í Skagafirði hefur mikið fram að færa þegar tækni í skólastarfi er annars vegar.

m_menntabudir-2015Heimild: skagafjordur.is