Menningarviðburðir í Alþýðuhúsinu um helgina

Tveir menningarviðburðir, sýningaropnun og fyrirlestur verða í Alþýðuhúsinu á Siglufirði um helgina.

Laugardaginn 9. janúar kl. 14.00 opnar Andreas Brunner sýningu í Kompunni sem ber yfirskriftina „Ég hugsa upphátt það sem ég segi hljóðlega“.

Sýningin er opin daglega frá kl. 14.00 – 17.00 til 24. janúar með þeim fjöldatakmörkunum og sóttvörnum sem eru í gildi.

 

Sunnudaginn 10. janúar kl. 14.30 verður Ottó Elíasson með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem ber yfirskriftina “Ljós mótar efni”.

Ottó Elíasson hefur nýlokið doktorsprófi í atómeðlisfræði frá Árósarháskóla í Danmörku. Í náminu vann hann að rannsóknum á því hvernig nýta má leysiljós til að móta köld atómský á ólíka vegu. Í hjarta tilraunarinnar sem hann vann að er smásjá, sem nota má til að sjá einstök atóm sem sitja fangin í ljóskristalli.

Athugið að takmarka þarf gestafjölda vegna covid og fólk beðið um að skrá sig á fyrirlesturinn í síma 865-5091 og vera með andlitsgrímu. Erindinu verður streymt á facebooksíðu Alþýðuhússins.