Menningarhátíðin Svarfdælskur mars á Dalvík
Menningarhátíðin Svarfdælskur mars hefst í kvöld og stendur fram á sunnudag. Hátíðin hefst með heimsmeistaramótinu í brús sem er spil sem lengi hefur verið spilað í Svarfaðardal samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Dalvíkurbæjar. Fram kemur að búist sé við æsispennandi keppni en keppt er um farandbikarinn gullkambinn.
Á morgun verður meðal annars í boði skoðanaganga þar sem sjónum verður beint að gömlum húsum á Dalvík undir leiðsögn Kristjáns Hjartarsonar. Þá verður boðið upp á kleinur og sýning opnuð og málþing um gömlu húsin í bænum. Ennfremur verða fleiri dagskrárliðir á morgun tengdir sama viðfangsefni.
Harmónikkuball verður síðan á laugardagskvöldið þar sem Hallgrímur Hreinsson stjórnar ferðinni. Á sunnudaginn munu ferðaþjónustuaðilar í sveitarfélaginu hafa opið hús og kynna starfsemi sína auk þess sem söfn og sýningar verða opnar. Þá verður einnig opið í sundlauginni og víðar.