Meirihlutinn í Fjallabyggð fallinn – þreifingar í gangi

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Fjallabyggð er fallinn eftir að Sólrún Júlíusdóttir, annar af tveimur bæjarfulltrúum Framsóknarflokksins, sagði sig úr Framsóknarfélagi Fjallabyggðar í gær, en hún var ósátt við kostnað á fyrirhuguðum framkvæmdum vegna grunnskólabygginga í sveitarfélaginu.

Að sögn Þorbjörns Sigurðssonar, varaforseta bæjarstjórnar Fjallabyggðar, átti þetta sér aðdraganda í samstarfsörðugleikum. Þorbjörn er oddamaður Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjórninni og segir hann viðræður um myndun nýs meirihluta þegar vera hafnar.

„Ég get staðfest að það eru þreifingar í gangi,“ segir Þorbjörn. „En þetta er viðkvæmt mál í augnablikinu.“

Sólrún segist ætla að starfa áfram utanflokka í bæjarstjórn. „Ég var ósátt við framkvæmdirnar að sumu leyti, ég sé ekkert athugavert við að byggja skólahús í Ólafsfirði, en Siglufjarðarmegin eru tvö skólahús sem hægt er að nýta. Ég vildi bíða þangað til við erum viss um að við höfum efni á þessu. En mér var meinað að bera fram breytingartillögu, vegna þess að það hefði stofnað meirihlutasamstarfinu í hættu og þess vegna sá ég enga aðra leið en að segja mig úr Framsóknarfélaginu til að ég gæti borið hana fram.“

mbl.is greinir frá