Meðalumferðin voru 548 bílar í Héðinsfjarðargöngum árið 2011

Meðalumferð um Héðinsfjarðargöng árið 2011 var 548 bílar á sólarhring. Það er talsvert meiri umferð en spár Vegagerðarinnar höfðu gert ráð fyrir áður en framkvæmdir hófust. Þá hljómaði spáin upp á um 350 bíla og í mesta lagi 500, líkt og fram hefur komið hér á vef Vegagerðarinnar.

Skammtímaspár Vegagerðarinnar um þróun umferðar í göngunum sem birtist í fréttum í fyrra stóðustu hinsvegar alveg.

Vegagerðinni var í upphafi nokkur vandi á höndum að spá fyrir um umferð í þessum göngum þar sem tvö bæjarfélög, sem varla gátu talist í vegasambandi, voru tengd saman með jarðgöngum, stystu leið. Beita þurfti allt annarskonar aðferðum við spáútreikninga en oftast er gert eða svo kölluðum þyngdarpunktalíkingum.

Rannsóknir á breytum þessara líkinga voru frekar stutt á veg komnar hér á landi á þessum tíma, því var notast við erlendar fyrirmyndir, sem gáfu að líklegast myndi umferðin verða 350 bílar á sólarhring  en í mesta lagi um 500 fyrsta heila árið eftir opnun ganganna. Miðað við þær rannsóknir sem síðar hafa verið gerðar t.d. með umferðarkönnunum þá virðast þær þó styðja gömlu spánna um 350 bíla á sólarhring.

Umferðin um Héðinsfjarðargöng var því tæplega 57% meiri en búast hefði mátt við og tæplega 10% meiri en allra bjartsýnustu spár Vegagerðarinnar, gerðu ráð fyrir.

Tæplega 400 þús bílar fóru fram og til baka um göngin á síðasta ári, það samsvarar því að rúmlega 1milljón manns hafi farið um göngin, fram og til baka.

Flestur óku um göngin í júlí eða tæplega 70. þús. bílar, fram og til baka. Það samsvarar um 17% af umferð ársins.

Fæstir óku um göngin í janúar eða um 5,6%, af umferð ársins.

Sé árinu skipt upp í þriðjunga fer tæplega helmingur allrar umferðarinnar fram í mánuðunum maí til og með ágúst, en svipuð umferð er á vorin og haustin með sín 25% hvort tímabil.

 

 

Vegagerðin greinir frá þessu í dag. Lesa má alla fréttina hér.