Markmaður Tindastóls sá rautt á Húsavíkurvelli

Tindastóll heimsótti Völsung á Húsavík í vikunni en liðin leika í 2. deild karla í knattspyrnu. Liðin voru fyrir leikinn rétt fyrir neðan miðja deild. Völsungur hafði unnið Sindra í síðasta leik og Stólarnir unnu KV örugglega.

Tindastóll tók forystu í leiknum á 41. mínútu með marki frá Kenneth Hogg, hans 8 mark í 10 deildarleikjum. Aðeins tveimur mínútum síðar jöfnuðu Völsungur leikinn, en markið gerði Sæþór Olgeirsson, hans 13 mark í 9 deildarleikjum í sumar. Staðan var 1-1 í hálfleik.

Á 64. mínútu var markmanni Tindastóls vikið af velli með rautt spjald, en enginn markmaður var á bekknum samkvæmt leikskrá, og fór því útileikmaður í markið það sem eftir lifði leiks. Sigurmark leiksins kom á 70. mínútu, en það gerði Gunnar Sigurður Jósteinsson leikmaður Völsungs, og hans fyrsta mark í sumar. Heimamenn héldu út og unnu 2-1 sigur og eru komnir í 4. sæti deildarinnar með 16. stig. Tindastóll er sem fyrr í 8. sæti eftir 10 umferðir.