Markaveisla á Ólafsfjarðarvelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við Kára frá Akranesi í 3. umferð Íslandsmótsins í 2. deild karla. Leikurinn fór fram á Ólafsfjarðarvelli en bæði lið voru í neðri hluta deildarinnar eftir tvær fyrstu umferðirnar.  Lið Kára er nokkurskonar B-lið ÍA, en ungir og reyndari leikmenn eru í Kára í dag, en þekktastur er líklega Garðar Gunnlaugsson og Andri Júlíusson sem báðir hafa átt langan feril með ÍA.

KF byrjaði með alla sína erlendu leikmenn í byrjunarliðinu og áttu þeir eftir að stimpla sig inn í leikinn. Það voru þó gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og komust yfir á 17. mínútu með marki frá Jóni Ákasyni, en hann er reynslu mikill leikmaður Kára sem hefur einnig átt langan feril með ÍA.  Staðan orðin 0-1 og áður en dómarinn flautaði til hálfleiks þá voru tveir leikmenn Kára og einn leikmaður KF búnir að næla sér í gult spjald, enda um mikinn baráttuleik að ræða.

Staðan var 0-1 þar til á 73. mínútu, en þá jafnaði KF loksins metin og skoraði Sævar Þór Fylkisson markið, hans fyrsta mark í 33. leikjum fyrir KF en hann hafði komið inná  sem varamaður á 63. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði KF aftur og var staðan skyndilega orðin 2-1, en markið gerði Theodore Develan Wilson, en hann er nýr leikmaður KF og var þetta fyrsta markið hans fyrir félagið.

Kári fékk svo víti á 77. mínútu, og Garðar Gunnlaugsson skoraði örugglega úr því, og staðan skyndilega orðin 2-2. KF tók miðju, brunaði í sókn og Ljubomir Delic skoraði gott mark og kom KF í 3-2 og kom marki nánast á sömu mínútu og mark Kára.

KF skoraði svo annað mark, en var dæmt af vegna rangstöðu, en Oumar Diouck kláraði færið vel.

KF átti ótrúlegan síðari hálfleik og kláruðu færin vel. Lokatölur urðu 3-2 og fyrstu þrjú stigin komin í hús hjá KF.