Umfjöllun um leiki Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í vor og sumar verða í boði Siglufjarðar apóteks sem eru aðalstyrktaraðili. Siglufjarðar Apótek leggur mikla áherslu á að bjóða framúrskarandi og persónulega þjónustu og vörur á góðu verði. Siglufjarðar Apótek var stofnað árið 1928 og er elsta starfandi apótek landsins í einkaeigu.
Umfjöllun:
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Reyni frá Sandgerði í 21. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu og fór leikurinn fram á Ólafsfjarðarvelli. KF stillti upp sterku liði og vildu fylgja eftir góðu gengi þegar liðið vann topplið Njarðvíkur afar sannfærandi í síðustu umferð. Reynir hefur verið í slæmum málum í deildinni og þurfti á kraftaverki að halda til að halda sér í deildinni. Þeir héldu í þá veiku von að með sigri á Ólafsfjarðarvelli og að KFA myndi tapa gegn Víkingi í þessari umferð, því í lokaumferðinni mætast Reynir og KFA og það yrði þá úrslitaleikur um sæti í deildinni. Fyrri leikur KF og Reynis í sumar fór 1-1 eftir tvö mörk úr vítaspyrnum. KF vann hinsvegar báða leikina gegn Reyni í deildinni árið 2021. KF gat með sigri komist upp í 7. sæti deildarinnar ef Haukar myndi tapa sínum leik.
Ljubomir Delic og Cameron Botes byrjuðu á bekknum hjá KF í þessum leik en þeir eru öllu jafnan í byrjunarliðinu. KF strákarnir ætluðu að klára mótið með stæl og gáfu ekkert eftir í þessum leik. Enginn átti samt von á þessari markasúpu sem boðið var uppá í þessum leik.
Það tók heimamenn rúman hálftíma að brjóta niður varnarmúr Suðurnesjamanna í þessum leik, en Sævar Þór Fylkisson kom KF á bragðið á 31. mínútu. KF þurfti að gera skiptingu í hjarta varnarinnar þegar Auðun varð fyrir meiðslum en Cameron Botes kom inná í hans stað. KF komst síðan í 2-0 í uppbótartíma fyrri hálfleiks með marki frá Julio Cesar Fernandes. Reynir missti einnig markmann sinn af velli undir lok fyrri hálfleiks og kom varamarkmaður liðsins inná fyrir hann, en varnarmaður var tekinn útaf. Markmaður Reynis var sagður hafa átt rasísk ummæli um markaskorara KF, Julio Cesar, en þetta átti bara eftir að kveikja í honum í leiknum og mætti hann tvíefldur til leiks í síðari hálfleik.
Þjálfari KF gerði sóknarskiptingu í hálfleik þegar Ljumbomir Delic kom inná fyrir Daniel Kristiansen. KF komst í 3-0 á 63. mínútu með marki frá Jordan Damachoua, en hann hafði skömmu áður nælt sér í gult spjald.
Julio Cesar kom KF í 4-0 á 70. mínútu og skoraði sitt annað mark í leiknum. Strákurinn var samt bara rétt að hitna. Þjálfari KF gerði tvöfalda skiptu strax eftir fjórða markið og kom Þorvaldur Daði og Þorsteinn Már inná fyrir Sævar Þór og Jordan. Eitthvað riðlaðist leikur heimamanna við þetta tímabundið en Reynir gerði skyndilega tvö mörk með mínútu millibili á 75. mínútu og 76. mínútu og var staðan skyndilega orðin 4-2.
KF strákarnir settu aftur í gírinn og refsuðu grimmilega í sínum sóknum. Julio Cesar skoraði mínútu síðar eða á 77. mínútu og kom KF í 5-2 og hans þriðja mark í leiknum. Fimm mínútum síðar skoraði Cameron Botes og var staðan 6-2 á 82. mínútu. Marinó Snær skoraði á 87. mínútu og var staðan 7-2 og uppgjöfin algjör hjá Reyni, en þeir skoruðu þó sárabotamark á 90. mínútu og var staðan 7-3.
Julio Cesar var ekki hættur að skora og gerði hann sitt fjórða mark á 91. mínútu og kórónaði þennan risasigur KF á botnliðinu, 8-3. Þvílík markaveisla fyrir gesti og stuðningsmenn liðsins á vellinum.
Önnur úrslit voru hagstæð og er KF núna í 7. sæti þegar einum leik er ólokið og getur liðið endað í 6. sæti ef úrslit verða hagstæð í lokaumferðinni, en liðið getur ekki endað neðar en í 8. sæti ef öll úrslit verða óhagstæð. Reynir Sandgerði er því fallið eftir þennan ósigur gegn KF.
Áfram KF.