Markaleikur á Dalvíkurvelli

Dalvík/Reynir mætti Sindra frá Hornafirði á Dalvíkurvelli í vikunni í 3. deild karla í knattspyrnu. Sindri var í 6. sæti með 21 stig en Dalvík var í 8. sæti með 17 stig fyrir þennan leik.

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur í fyrri hálfleik og komust í 0-2 um miðjan fyrri hálfleik þegar þeir skoruðu tvö mörk með stuttu millibili. Dalvik svaraði þessu strax með marki frá Borja Laguna sem var sjóðheitur í þessum leik. Staðan var því 1-2 í hálfleik.

Á 56. mínútu fékk D/R vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Laguna, staðan orðin jöfn 2-2. Á 64. mínútu missti Sindri mann af velli og léku þeir einum færri það sem eftir var leiks.

Þjálfari Dalvíkur brást strax við þessu og gerði tvöfalda skiptingu, og nú var sótt til sigurs.

D/R fékk aftur víti á 82. mínútu, og aftur fór Borja á punktinn og skoraði, staðan 3-2 og skammt eftir af leiknum. Borja Laguna kominn með þrennuna.

D/R náði tveimur skiptingum áður en dómarinn flautaði til leiksloka. Frábær sigur hjá Dalvík/Reyni, 3-2. Liðið er núna í 7. sæti með 20 stig og er þéttur pakki af liðum fyrir ofan og þarf lítið að gerast svo liðið komist ofar í töfluna með fleiri sigurleikjum.