Malarvöllurinn verður íbúðabyggð á nýju skipulagi

Á nýju deiliskipulagi á Siglufirði verður gamla malarvellinum breytt í íbúabyggð. Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur ákveðið að unnið verði deiliskipulag á malarvellinum Siglufirði. Svæðið verður skipulagt sem íbúðarsvæði með fjölbreyttum stærðum íbúða með sérinngangi í litlum fjölbýlishúsum. Samhliða deiliskipulagsvinnunni verður gerð breyting á Aðalskipulagi Fjallabyggðar 2008-2028.

Svæðið var upphaflega beitarland fyrir búfénað en árið 1944 var það afhent Knattspyrnufélagi Siglufjarðar og hefur lengst af verið notað til æfinga og keppnisleikja. Eftir að Knattspyrnufélagið flutti aðstöðu sína hefur svæðið verið lítið notað. Tvö hús standa á skipulagssvæðinu, við Eyrargötu 28 og 30.

Á svæðið var sáð grasfræjum fyrir nokkrum árum til að binda lausa mölina og rykið sem fauk úr í vindasömu veðri. Svæðið er því að mestu leyti grasi gróið á sumrin en notað sem snjógeymsla á veturna.

Uppgangur hefur verið í sveitarfélaginu undanfarin ár og hefur eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði aukist með tilkomu Héðinfjarðarganga og uppbyggingu í atvinnugreinum bæjarins. Á Siglufirði eru einbýlishús algengasta byggingarformið og vöntun er á fjölbreyttari húsagerð í bænum með góðu aðgengi.

Áherslur á svæðinu:

  • Stefnt er að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á svæðinu.
  • Stærðir íbúða skulu vera litlar og meðalstórar.
  • Góð tenging við núverandi byggð.
  • Gera skal ráð fyrir opnu svæði fyrir almenning á skipulagssvæðinu.