Magnaður miðvikudagur í Héðinsfirði (14. Sept)

Fyrsti hreystidagur vetrarins gekk glimrandi vel hjá yngri bekkjunum á Ólafsfirði. Veðrið var frábært –  flottasti dagur ársins að margra mati. Farnar voru fimm mismunandi gönguleiðir og komu nemendur og starfsmenn skólans skælbrosandi til baka eftir röltið út í náttúrunni. Sjöundi bekkur gekk sólarmegin meðfram Héðinsfjarðarvatni og endaði út í fjöru. Þar skelltu nokkrir nemendur sér í sjóinn og léku við ölduna – þeim varð ansi kalt á bakaleiðinni enda þurfti að vaða mýri og einn stóran læk.  Sjötti bekkur gekk inn Burstabrekkudal, fimmti bekkur kíkti í Brimnesdal, 3.-4. bekkur fór inn Syðri-Árdal og 1.-2. bekkur hitti tröllkarl í einni af hlíðum Skeggjabrekkudals.

Texti og ljósmyndir aðsent: Ragnar Magnússon, Ólafsfirði