Gleðifrétt frá Ungmennafélaginu Glóa:

Salka Heimisdóttir, sem varð fyrir valinu sem efnilegasta frjálsíþróttastúlkan í flokki 13-18 ára við val á íþróttamanni Fjallabyggðar árið 2011, er mætt aftur til leiks eftir hið hörmulega bílslys sem varð hér á Siglufirði í nóvember sl. Salka margbrotnaði, þegar hún varð fyrir bílnum, m.a. á öxl, olnboga, fingrum, hné og mjöðm en hefur tekist á við endurhæfinguna af miklum dugnaði og æðruleysi og hefur smátt og smátt öðlast meiri kraft og hreyfanleika í liðum. Stuðningur sá sem fjölskyldan fann fyrir í kjölfar slyssins skipti einnig miklu máli fyrir alla fjölskyldumeðlimi. Það var því ákaflega ánægjulegt að sjá Sölku mæta á æfingu í morgun og taka vel á. Kasta kúlu, kringlu og spjóti, skokka og gera bæði hlaup- og kraftæfingar. Ekki var laust við að þjálfaranum vöknaði um augu.

Texti og heimild: http://umfgloi.123.is/