Árið 2014 hófu Skagafjarðarveitur mælavæðingu í þéttbýliskjörnum Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Verkið hófst á útskiptingu eldri mæla á Hofsósi og Hólum en á þeim stöðum hefur heitt vatn verið selt samkvæmt mæli frá upphafi. Í vor var unnið uppsetningu mæla í Varmahlíð.
Áætlað er að setja upp um 400 mæla á Sauðárkróki ár hvert og að verkinu verði lokið fyrir árslok 2017.
Mælarnir eru framleiddir af danska fyrirtækinu Kamstrup og eru svokallaðir rafeindamælar sem mæla rennsli með hljóðbylgjumælingu. Mælirinn sendir frá sér boð sem gerir það að verkum að hægt er að safna álestrum í sérútbúna tölvu án þess að fara inn á heimili fólks.
Gert er ráð fyrir að lesið verði af mælunum einu sinni á ári og notkun áætluð fyrir ár í senn þannig að greiðslur verði jafnar yfir árið. Innheimta samkvæmt mæli hefst um leið og mælir er settur upp. Þetta kemur fram á vef Skagafjarðarveitna.