Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar á hverjum tíma. Það er Landlæknisembættið sem safnar saman upplýsingum og gefur vísana út. Á dögunum voru birtir lýðheilsuvísar fyrir árið 2023 og þá nýjung að finna að nú voru tekin fyrir stærstu sveitarfélögin og lýðheilsuvísar birtir sérstaklega fyrir þau.

Við val áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna og eru þeir því sérstaklega nytsamlegir í verkefni eins og Heilsueflandi samfélagi. Út frá þessum vísum er hægt að setja upp áhersluverkefni sem nýtast hverju svæði fyrir sig.

Hvað Norðurland varðar eru hér dæmi um helstu lýðheilsuvísa þar sem tölur eru frábrugðnar landsmeðaltali:

 • Færri sem búa í leiguhúsnæði.
 • Færri fullorðnir hafa orðið fyrir mismunun.
 • Þátttaka í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum meiri.
 • Hamingja fullorðinna minni.
 • Fleiri sem meta líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega.
 • Fleiri fullorðnir nota blóðsykurslækkandi lyf.

Hvað Akureyrarbæ varðar sérstaklega eru helstu frávik frá landsmeðaltali þessi:

 • Fleiri nemendur í 7. bekk nota virkan ferðamáta í skóla.
 • Sýklalyfjaávísanir til barna yngri en 5 ára færri.
 • Þátttakan í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameini meiri.
 • Færri heilsugæslu- og sérfræðingaheimsóknir.
 • Nikótínpúðanotkun ungs fólks, 18-34 ára, meiri.
 • Fleiri fullorðnir meta andlega og líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega.

Nánari upplýsingar um lýðheilsuvísa 2023 má finna á vefsíðu landlæknis, www.landlaeknir.is undir hlekknum Útgefið efni.