Lokasýning Brúðkaups í Fjallabyggð í kvöld
Allra, allra síðasta sýning á gamanleiknum Brúðkaup, sem saminn og leikstýrður er af Guðmundi Ólafssyni, fer fram í dag, miðvikudag kl. 20:00 í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.
Tæplega 1.200 manns hafa komið í menningarhús okkar Fjallbyggðinga, Tjarnarborg, og skemmt sér konunglega, og hafa viðtökur sem leikarar hafa fengið í sínu daglega lífi verið ótrúlegar.
Höfundurinn og leikstjórinn sjálfur mun heiðra okkur með nærveru sinni á lokasýningunni, en hann mun bregða sér í hlutverk hins óborganlega séra Egils.
Ekki missa af þessari allra síðustu sýningu Bæjarlistamanns Fjallabyggðar árið 2014.
Texti: Fréttatilkynning/ innsent.