Lokaleikur KF á Ólafsfjarðarvelli í dag

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar leikur við Ægir úr Þorlákshöfn í dag kl. 14:00 á Ólafsfjarðarvelli.  Leikurinn er í lokaumferðinni í 3. deild karla í knattspyrnu. Bæðið lið eru um miðja deild og er því leikið upp á heiðurinn í þessum leik. Hvorugt liðið á möguleika á að komast upp um deild, tvö lið eru fallin, en það skýrist í þessari umferð hvaða lið fylgir Kára upp í 2. deild.

Lið Ægis er sýnd veiði en ekki gefin. Liðið er með 21 stig, eða þremur stigum minna en KF og er í 7. sæti. KF er í 6. sæti með 24 stig en með verri markatölu. KF hefur unnið 8 leiki og gert ekkert jafntefli, en Ægismenn hafa unnið 5 leiki og gert 6 jafntefli. Með sigri í dag getur Ægir komist uppfyrir KF í töflunni og jafnað stigaskor KF. Í liði Ægis er næst markahæsti maður 3. deildar, Jonathan Hood, með 13 mörk í 16 leikjum. Einnig Guðmundur Garðar Sigfússon með 8 mörk í 17 leikjum. Þessa menn þarf því að dekka vel leiki þeir í dag.

Markahæsti maður KF er Ljubomir Delic með aðeins 6 mörk, en mikil dreifing hefur verið á markaskorun liðsins í sumar. KF hefur skorað 32 mörk og fengið á sig 33. Sigri KF í þessum leik eiga þeir möguleika á að enda í 5. sæti deildarinnar, ef Einherji tapar stigum gegn KFG. KF sigraði fyrri leik liðanna í sumar örugglega, 0-3, en Ægismenn hafa náð góðum úrslitum í síðustu leikjum og KF hefur ekki unnið leik í síðustu 5 leikjum liðsins.

Nánar verður fjallað um úrslit leiksins þegar þau liggja fyrir og einnig smá pistill um gengi KF í sumar.