Úrslitaleikir KF/Dalvík á ReyCup

KF/Dalvík í 4. flokki karla léku sína úrslitaleiki í morgun á ReyCup í Laugardal. C-liðið spilaði gegn Njarðvík á Framvellinum kl. 9. Úrslitin þar voru 2-1 fyrir Njarðvík. Leikið var um 9.-10. sæti. KF/Dalvík fékk nokkur færi sem ekki tókst að nýta og voru óheppnir að tapa leiknum að sögn viðstaddra.

B-liðið átti betri leik en þeir kepptu við Þrótt kl. 10 í morgun um 9.-10. sæti. Leikurinn byrjaði fjörlega og KF/Dalvík setti strax eitt mark eftir stungusendingu inn fyrir vörn Þróttar. Þróttur jafnaði leikinn í 1-1 nánast í næstu sókn, eftir góða aukaspyrnu fyrir utan vítateig. Nokkrum mínútum síðar komast KF/Dalvík aftur yfir eftir gott mark eftir gegnumbrot. Þróttur jafnaði aftur leikinn með marki fyrir utan teiginn, en markmaður KF var óheppinn að verja það ekki. Staðan því orðin 2-2 um miðjan fyrri hálfleik. Eftir þetta varð KF/Dalvík sterkari aðilinn og börðust vel um hvern bolta og áttu gott spil sín á milli. Tvö mörk KF komu í viðbót í fyrri hálfleik, og staðan 4-2 í leikhléi.

Bæði lið fengu sín færi í síðari hálfleik en KF/Dalvík skoruðu þrjú mörk í síðari hálfleik, flest mörk eftir gott samspil og gegnumbrot. Bæði lið áttu skot í stöng en það virtist sem KF/Dalvík  ætti meiri orku í þennan leik því baráttan var til fyrirmyndar allan leikinn. Markmaður Þróttar greip knöttinn 2-3 metra fyrir utan vítateig sinn í síðari hálfleik og var ekki meðvitaður um staðsetningu sína, hann slapp við áminningu en KF/Dalvík fékk hættulega aukaspyrnu sem var varin. Lokatölur urðu 7-2 og hálfgerð sláturtíð í Laugardalnum. Eitt marka KF/Dalvík hefði líklega ekki átt að standa en mikil rangstöðulykt var af því marki og virtust tveir leikmenn KF/Dalvík vera fyrir innan þegar að sending kom sem gaf mark.

Eftir leikinn sagði þjálfari liðsins að þetta hefði verið besti leikur KF/Dalvík á mótinu og mikil framför frá fyrsta leik. Einn leikmaður gerði 4 mörk í leiknum og gaf stoðsendingar. Þjálfarinn var virkilega ánægður með leik sinna manna og alla baráttuna.

20140727_101356 20140727_104550 20140727_110144

 

 

 

 

 

Ljósmyndir: Héðinsfjörður.is