Vegna vatnavaxta í Jökulsá á Fjöllum og Kreppu tók lögreglan á Norðurlandi eystra ákvörðun um að rýma tjaldsvæðið í Herðubreiðarlindum kl. 00:30 í nótt. Var það gert vegna þess að sameiginlegt rennsli ánna var komið upp fyrir 600 rúmmetra á sekúndu skv. mælum og tilkynningu frá Veðurstofu. Mikil hlýindi eru á hálendinu og vatnið tilkomið vegna bráðnunar.
Ekki er ljóst hversu mikið varnargarðurinn ofan við Herðubreiðarlindir þolir en árnar koma saman ekki langt austan við Lindirnar. Því var þessi ákvörðun tekin.

Eins var þjóðvegi F88 frá Hringvegi og að þjóðvegi F910, Austurleið lokað á meðan þetta ástand varir. Verður þetta skoðað nánar í dag og fylgist Veðurstofan með rennsli ánna sem og lögreglan. Fólkið sem var í Herðubreiðarlindum fór upp í Drekagil við Öskju.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá þessu í morgun.

Mynd frá Lögreglan á Norðurlandi eystra.