Lögreglan rannsakar meinta frelsissviptingu og líkamsárás á Akureyri

Lögreglan á Norðurlandi eystra rannsakar nú mál er varðar meinta frelsissviptingu og líkamsárás á Akureyri. Málið kom inn á borð lögreglu eftir að fórnarlamb meintrar árásar, karlmaður á fimmtugsaldri, leitaði aðstoðar á Sjúkrahúsi Akureyrar daginn eftir. Viðkomandi aðili er talsvert meiddur og er m.a. rifbeinsbrotinn.

Í lok vikunnar handtók lögreglan svo sjö aðila vegna þessa máls og í kjölfarið voru fjórir aðilar, þrír karlmenn og ein kona, úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald. Einum aðila hefur verið sleppt aftur. Öll hafa þessi sem handtekinn hafa verið komið við sögu lögreglu áður, sum ítrekað.

Rannsókn lögreglu er í fullum gangi og ekki er unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.