Lögreglan með vegaeftirlit og hraðamælingar með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar

Í gær var Lögreglan á Norðurlandi eystra við vegaeftirlit og hraðamælingar í samstarfi við þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Eftirlitið fór fram á þjóðvegi 1 frá Reykjavík til Akureyrar. Mælingar voru framkvæmdar bæði úr þyrlunni, með búnaði gæslunnar, í samræmi við verklagsreglur Ríkislögreglustjóra. Þá var einnig lent á nokkrum stöðum við þjóðveginn og mælingar framkvæmdar með hefðbundnum radarmælingum með radarbyssu.

Alls voru 7 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur í eftirlitinu. Sá sem hraðast ók mældist á 140 km/klst. Þyrla Landhelgisgæslunnar ætlar svo að vera tiltæk á Norðurlandi á meðan fjallahlaupið Súlur Vertical fer fram. Lengsta vegalengdin í hlaupinu er 55 km um óbyggðir og fjöll og því gott að vita af Landhelgisgæslunni í nágrenninu á meðan hlaupið fer fram.