Local food festival á Akureyri í október

Á Norðurlandi er stór hluti þeirrar fæðu sem Íslendingar neyta framleiddur og þaðan kemur hráefni í alls kyns rétti sem bæði heimamenn og erlendir gestir sækja mikið í. Á matvælasýningunni Local Food Festival á Norðurlandi munu framleiðendur og matreiðslumenn sýna allt það besta sem tengist norðlenskum mat, en sýningin verður haldin í október í Menningarhúsinu Hofi.

Local Food Festival er því kjörinn kynningarvettvangur fyrirtækja og einstaklinga til að vekja athygli á framleiðslu, matarmenningu, veitingastarfsemi, matartengdri ferðaþjónustu og verslun. Mikil áhersla er lögð á að sýningin sé skemmtileg og eru ýmsir viðburðir skipulagðir, til dæmis matreiðslukeppnir þar sem bæði fagfólk og almenningur fær að spreyta sig með hráefni úr héraði.

Þó er sýningin fyrst og fremst kynningar- og sölusýning og aðgangur er ókeypis fyrir gesti. Síðast mættu um 15 þúsund gestir og yfir 30 fyrirtæki kynntu sína framleiðslu.

Texti: Northiceland.is