Ljóðahátíðin Haustglæður í Fjallabyggð

Ljóðahátíðin Haustglæður, áður Glóð, er hafin og sem fyrr eru það Ljóðasetur Íslands og Ungmennafélagið Glói sem standa að hátíðinni í sameiningu í Fjallabyggð. Hátíðin samanstendur af nokkrum viðburðum í september, október og nóvember. Þegar hafa þrír viðburðir hennar farið fram tengdir Grunnskóla Fjallabyggðar og Leikskóla Fjallabyggðar. Í september kom Kómedíuleikhúsið í heimsókn í skólana og sýndi verkið Höllu sem er byggt á samnefndri ljóðabók Steins Steinarrs. Voru krakkarnir ánægðir með heimsóknina og þótti spennandi að sjá bæði dansarann og leikarann sem túlkuðu verkið og ekki síður að fá að skoða leikmyndina og leikmunina. Umf Glói bauð nemendum upp á þessa sýningu, í samstarfi við skólana, í tilefni af 20 ára afmæli félagsins sl. vor.

Í gær heimsótti Þórarinn Hannesson, skáld og forstöðumaður Ljóðasetursins, svo nemendur á miðstigi í Grunnskóla Fjallabyggðar og las úr verkum sínum auk þess sem nemendur lásu fyrir hann bæði eigin ljóð og annarra og fórst það vel úr hendi.

Þórarinn kom færandi hendi og gaf hverjum nemenda á miðstiginu þrjár bækur en á dögunum fékk Umf Glóa stóran hluta af lager Siglufjarðarprentsmiðju, sem prentaði helstu barnabækur landsins um árabil s.s. bækurnar um Tarzan, Gust, Lazzý, Jonna, Siggu, Lottu o.fl. Þótti tilvalið að færa krökkunum nokkrar bækur til að ýta undir lesturinn hjá þeim og voru þau afskaplega ánægð með gjöfina.

10387536_1563989850486705_1719140204404007172_n

Texti og mynd: Facebooksíða Ljóðasetur Íslands / Þórarinn Hannesson.