Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.
KF mætti Augnablik í dag á gervigrasi KA á Akureyri. Augnablik er nýliði í deildinni og er með nokkra reynslubolta í sínu liði. KF tapaði naumlega gegn KFG í fyrstu umferð á meðan Augnablik vann Dalvík/Reyni 3-1. Sigur í þessum leik var því mjög mikilvægur til að lyfta sér í efri hluta deildarinnar í byrjun móts.
KF var með nokkuð hefðbundið byrjunarlið í bland við nokkra nýlega leikmenn eins og Björn Andra, Tómas Veigar Baldvin Frey og Andra Snæ en þeir hafa allir leikið færri en 6 leiki í deild og bikar fyrir KF. Christopher Thor Oatman nýr leikmaður KF byrjaði á bekknum.
Meðalaldur byrjunarliðs KF var 22,8 ár en var 25,5 hjá Augnablik.
Fyrsta mark leiksins kom á 41. mínútu, en að var Ljubomir Delic sem kláraði færið vel eftir stoðsendingu frá Halldóri Loga. Staðan því 1-0 í hálfleik. KF sótti fast í upphafi fyrri hálfleiks, og fengu nokkur færi og Ljubomir Delic náði aftur að klára færi eftir sendingu frá Grétari Áka á 50. mínútu. Ljubomir Delic kominn með 8 mörk í 20 leikjum fyrir KF. Fleiri mörk voru ekki skoruð en á síðustu 15. mínútum leiksins gerði KF 3 skiptingar til að hleypa ferskum mönnum inná og lék Christopher Thor Oatman síðustu 5. mínútur leiksins í sínum fyrsta leik fyrir félagið.
Fyrsti sigur KF í 3. deildinni í ár, og liðið er í 4. sæti með 3 stig eftir tvær umferðir. KF leikur næst gegn Einherja á Vopnafirði, föstudaginn 25. maí.
Þessi umfjöllun er í boði Arion banka í Fjallabyggð.