Ljósmyndasýningin Ein á dag í Bergi

Ljósmyndasýningin Ein á dag er í Bergi menningarhúsi á Dalvík og stendur til 31. október.  Júlíus Júlíusson hefur tekið eina mynd á dag frá 1. janúar 2017 og sett á Instagram reikning sinn @hulio66. Þetta skemmtilega verkefni varð til í göngutúr með allri fjölskyldunni að kvöldi fyrsta dags ársins 2017 þegar Júlíus tók mynd af krossfiski í fjörunni á Dalvík. Til varð hugmyndin “Ein á dag!” út árið.  Nú í október sýnir Júlíus fyrri hluta ársins eða 181 mynd í Menningarhúsinu Bergi.

Myndirnar á sýningunni verða til sölu og fást í fallegum römmum hvítum eða svörtum 23 x 23 og myndirnar sjálfar eru 13 x 13. Hver mynd hefur sína dagsetningu og nafn og er merkt þannig, því er gaman að gefa þær til þeirra sem eiga afmæli viðkomandi dag. Allar myndirnar eru teknar á Samsung 7 edge síma.