Ljósmyndasýningar í Saga Fotografica á Siglufirði

Hjónin Sigrún Kristjánsdóttir og Pálmi Bjarnason hafa unnið saman að ljósmyndum síðan árið 2003. Bæði eru miklir náttúruunnendur og ferðast mikið saman um Ísland til að sinna báðum áhugamálum; að skoða náttúruna og taka ljósmyndir. Bæði hafa tekið þátt í nokkrum ljósmyndasýningum og gefið út ljósmyndabækur.
Mjög áhugaverð sýning á ljósmyndum hjónanna verður opnuð í Saga Fotografica að Vetrarbraut 17 á Siglufirði þann 17. júní, en þá verða nákvæmlega þrjú ár síðan þetta óvenjulega og merkilega safn hjónanna Baldvins Einarssonar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur var formlega opnað.
Allar myndirnar á sýningu Sigrúnar og Pálma eru teknar á Landmannaafrétti á Suðurlandi. Flestar eru frá Veiðivatnasvæðinu, sem er mikil náttúruparadís. Þar eru dimmblá fjallavötn, mosagróin hraun, gróðurlaus fjöll og sandar.
Ljósmyndir Pálma og Sigrúnar verða til sýnis í Stofu ljósmyndarans á 2. hæð en á jarðhæð hússins er sem fyrr sýning á stórmerkilegum myndum Vigfúsar Sigurgeirssonar ljósmyndara.
Aðgangur er ókeypis sem fyrr og alltaf heitt á könnunni í Saga Fotografica.

15095613186_e76792530d_z