Ljósmyndasýningin „Lífríki Norðurslóða í gegnum linsuna“ verður opnuð í dag, föstudaginn 31. júlí fyrir utan Menningarhúsið Hof á Akureyri kl. 14:00. Ljósmyndasýningin samanstendur af myndum víðsvegar frá norðurslóðum og sýnir vinningsmyndir úr ljósmyndakeppni sem CAFF skrifstofan á Íslandi, vinnuhópur Norðurskautsráðsins, hefur staðið fyrir síðastliðið ár.
Á sýningunni má einnig sjá megin niðurstöður úr skýrslu er nefnist Lífríki Norðurslóða (Arctic Biodviersity Assessment) sem er fyrsta heildstæða mat á lífríki norðurslóða. Að skýrslunni koma yfir 250 vísindamenn víðsvegar að en starfinu var stýrt frá Akureyri. Opnun sýningarinnar er í samstarfi við öflugan kjarna stofnana og fyrirtækja sem koma að norðurslóðamálum á Akureyri auk þess sem ljósmyndakeppnin sjálf naut stuðnings fjölda aðila sem láta sig málið varða.
Til máls taka:
- Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri mun opna sýninguna.
- Embla Eir Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurslóðanets Íslands mun segja gestum frá því öfluga norðurslóðastarfi sem á sér stað á Akureyri.
- Kári Fannar Lárusson, verkefnastjóri hjá CAFF, mun segja nokkur orð um starfsemi CAFF, hversvegna ráðist var í að halda ljósmyndakeppni um norðurslóðir og fjalla um söguna á bakvið valdar myndir.