Ljóðasetur Íslands á Siglufirði hefur fengið styrk úr Barnamenningarsjóði vegna verkefnisins Barnamenning á Ljóðasetri. Í því verkefni mun Ljóðasetrið bjóða upp á fjölda viðburða fyrir börn í sumar. Samstarfsaðilar verða leikskólinn Leikskálar, Kómedíuleikhúsið, Ungmennafélagið Glói og hljómsveitin Ástarpungarnir.
Ljóðasetur Íslands hlaut 906.000 kr. styrk í ár úr sjóðnum.
34 verkefni hlutu styrk í ár hjá Barnamenningarsjóði og er þetta í fjórða sinn sem veitt er úr sjóðnum.
Heildarupphæð úthlutunarinnar var 92 milljónir króna. Alls bárust 106 umsóknir og var sótt um tæplega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 380 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í skála Alþingis á degi barnsins, sunnudaginn 29. maí 2022.
Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og forsætisráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins. Sem fyrr hefur fagráðið horft til fjölbreyttra þarfa barna og ungmenna, þar koma til álita þættir á borð við búsetu, aldur, kyn, uppruna og efnahag.
Nánar um verkefnið í Ljóðasetrinu:
Ljóðasetrið virkjar börn í Fjallabyggð í sumar til ýmissa skapandi verka m.a. með ljóða- og sögugerð, grímugerð, söng og listaverkasmíð. Í boði verða vikulegir viðburðir fyrir börn á aldrinum 5 – 12 ára, auk þess sem farið verður í samstarf við Ungmennafélagið Glóa um skapandi verkefnið Ævintýravikur, þar sem listin verður fléttuð saman við fjöru- og skógarferðir.