Ljóðahátíðin Haustglæður

Ljóðahátíðin Haustglæður heldur áfram á Siglufirði. Næsti viðburður er á Ljóðasetrinu þriðjudagskvöldið 10. október kl. 20.00.  Valgerður H. Bjarnadóttir húsfreyja í Davíðshúsi á Akureyri, fjallar um um ástarljóð Davíðs Stefánssonar og ástina í lífi hans. Hún gluggar í bréf og bækur, les ljóð og leyfir sér að velta upp hugmyndum um hver þessi maður var, sem hefur hrifið konur og karla í 100 ár.

Davíð er skáld ástarinnar. Hann elskar heitt og einlæglega, oft blítt og barnslega, en stundum er ástin full dulúðar, djúp, tryllt og jafnvel tortímandi.  Áhugavert erindi þar sem m.a. er vitnað í bréf hans til ástkvenna sinna, óbirtar greinar og svo að sjálfsögðu ljóð hans sem lifað hafa með þjóðinni í næstum hundrað ár.

Valgerður H. Bjarnadóttir ólst upp með ljóðum og öðrum verkum Davíðs, eins og þúsundir annarra Íslendinga. Hún las þau, lærði og tengdist sumum þeirra sterkum böndum. Undanfarin sumur hefur hún verið í hlutverki húsfreyju í Davíðshúsi og sökkt sér á ný inn í þennan heim ástar, sögu, trúar, ævintýra og þjáningar, sem fáir hafa náð að mála eins sterkum litum og Davíð. Valgerður er félagsráðgjafi með MA í trúarheimspeki og menningarsögu.