Ljóðahátíðin Haustglæður í Fjallabyggð

Ljóðahátíðin Haustglæður fer fram í 13. sinn í Fjallabyggð á komandi vikum.  Sérstakir gestir í ár verða Anton Helgi Jónsson, ljóðskáld, og Elfar Logi Hannesson, leikari. Elfar Logi hefur komið fram á nokkrum ljóðahátíðum áður í Fjallabyggð en Anton Helgi er að koma í fyrsta sinn á hátíðina.

Meðal dagskrárliða má nefna að ljóðaleikurinn Með fjöll á herðum sér, sem inniheldur ljóð Stefáns Harðar Grímssonar, verður frumsýndur, Anton Helgi mun flytja ljóð sína á Ljóðasetrinu, skáld mun heimsækja skóla sveitarfélagsins og dvalarheimili, tónleikar með lögum við ljóð ýmissa skálda verða haldnir, kynntar verða ljóðabækur ýmissa skálda, haldin verður ljóðasamkeppni milli nemenda í eldri deild Grunnskóla Fjallabyggðar og ýmsilegt fleira.

Nánari dagskrá verður birt innan tíðar.

Það eru sem fyrr Ungmennafélagið Glói og Ljóðasetur Íslands sem standa saman að hátíðinni og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra, Fjallabyggð og Kjörbúin styrkja hana.