Fyrsti viðburður Ljóðahátíðarinnar Haustglæður fer fram sunnudaginn 20. september kl. 16:00 í Ljóðasetri Íslands á Siglufirði.  Þar verður boðið upp á dagskránna Bernskubrek þar sem þeir bræður Elfar Logi og Þórarinn Hannesson munu rifja upp eigin bernskubrek og annarra, í óbundnu sem bundnu máli.

Elfar Logi mun meðal annars lesa úr bók sinni og Jóns Sigurðar Eyjólfssonar, Bíldudals Bingó. En bókin sem kom út í sumar er svo að segja uppseld og stoppar lítt við í hillum bókasafna að sögn kunnugra. Þórarinn mun flytja ljóð úr bókum sínum Æskumyndir og Fleiri æskumyndir. Svo er aldrei að vita nema Grettir nokkur Ásmundarson muni líta við og segja frá sínum æskuárum, en hann var víst nokkuð ódæll í æsku sem kunnugt er og fleiri ærslabelgir munu eitthvað koma við sögu.

Að vanda er enginn aðganseyrir og heitt á könnunni og allir hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir. Áður, frá árinu 2007 – 2012 hét hátíðin Glóð og fór fram á þremur dögum en seinustu tvö árin hefur hátíðin staðið saman af stökum viðburðum í september til nóvember og svo verður einnig í ár.

Ljóðahátíðin Haustglæður er samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa og er styrkt af Fjallabyggð.

12039735_1698007597084929_8388882713057698966_n