Ljóðabók til styrktar setrinu

Þórarinn Hannesson, frumkvöðull að Ljóðasetrinu og forstöðumaður þess, gefur út sína þriðju ljóðabók föstudaginn 6. júlí og mun allur ágóði af bókinni renna til Ljóðasetursins. Af þessu tilefni verður útgáfuteiti í Ljóðasetrinu, föstudaginn 6. júlí, um kl. 16.30 eða strax að loknum örtónleikum Harðar Torfasonar á setrinu, sem hefjast kl. 16.00. Þar mun Þórarinn segja frá tilurð bókarinnar og lesa nokkur ljóð úr henni áður en boðið verður upp á léttar veitingar.

Bókin ber heitið Nýr dagur og er í henni að finna 52 ljóð sem flest hafa verið samin á síðustu tveimur árum. Yrkisefnin eru af ýmsum toga eins og kaflaheiti bókarinnar bera með sér: Þankabrot, Náttúran, Börnin og Ástin.

Bókin mun fást í helstu bókaverslunum landsins, á Ljóðasetrinu og víðar. Verð hennar er aðeins 2.000 kr. Bókaforlagið Ugla gefur bókina út. Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar styrkti útgáfu hennar.