Byggðarráð Skagafjarðar segir að svo litlir fjármunir séu veittir til viðhalds á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók að það sé til skammar.

Flugvöllurinn gegnir mikilvægu hlutverki fyrir sjúkraflutninga í landshlutanum og nauðsynlegt að vellinum og allri aðstöðu sé viðhaldið á sómasamlegan hátt og þannig að lífi fólks sé ekki ógnað af þessum sökum.

Þess má jafnframt geta að slitlag á flugbrautinni er farið að láta verulega á sjá, ráðast þarf í endurbætur á lendingarljósum, auk fleiri brýnna aðgerða til að tryggja að völlurinn geti að lágmarki haldið áfram að sinna hlutverki sínu við að tryggja sjúkraflug til og frá Skagafirði.

Þetta kom fram í fundargerð Sveitastjórnar Skagafjarðar.