Lítil flugvél nauðlenti á Eyjafjarðarbraut

Um klukkan hálf eitt í dag var tilkynnt um að lítil flugvél hefði misst afl á flugi rétt sunnan við Akureyri og um borð væru tveir menn. Skömmu síðar var tilkynnt að flugvélin væri lent en hún hefði þurft að lenda á Eyjafjarðarbraut vestari, rétt sunnan við Hrafnagil. Flugkennari og flugnemi voru um borð og sluppu þeir ómeiddir. Ekki er talið að flugvélin sé mikið skemmd. Lögreglan á Norðurlandi eystra er á vettvangi og einnig er von á aðilum frá rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar að svo stöddu. Þetta kemur fram hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Vélin ber auðkennisstafina TF-FAD og er að gerðinni Piper Tomahawk framleidd árið 1978. Vélin er í eigu Flugfélags Akureyrar og Flugskóli Akureyrar hefur vélina til umráða.