Í vor höfðu eigendur flugvélarinnar TF-ABC samband við safnstjóra Flugsafnsins á Akureyri og vildu kanna áhuga safnsins á því að fá vélina til eignar og varðveislu. Höfðu þeir hug á því að hætta að fljúga henni og vildu að hún yrði varðveitt á Flugsafninu þar sem hún fengi sín notið. Stjórn safnsins þáði höfðinglegt boð eigenda vélarinnar og var hún formlega afhent Flugsafninu á Flugdegi safnsins þann 18. júní sl.
Zlin Z-326 Trener-Master listflugvélin TF-ABC var skráð á Íslandi þann 2. september 1966 í eigu Félags íslenskra einkaflugmanna og Flugmálafélags Íslands. Vélin var keypt glæný frá verksmiðjunni í Tékkóslóvakíu. Með vélinni komu flugvirki sem sá um samsetningu vélarinnar og flugmaður sem sá um að kenna á vélina.
Á þeim tíma sem vélin var keypt hingað til lands var Zlin Z-326 Trener-Master talin vera ein fullkomnasta listflugvél sem völ var á og var ein sigursælasta flugvélategundin í alþjóðlegum listflugskeppnum. Alls voru framleiddar 426 flugvélar af þessari gerð.
Eftir 1975 var TF-ABC komin í einkaeign áhugamanna um listflug. Eigendahópurinn hefur breyst í gegnum árin, en síðustu eigendur vélarinnar voru Ásgeir Christiansen, Friðrik Ingi Friðriksson, Helgi Rafnsson, Magnús Norðdahl heitinn og Magnús Steinarr Norðdahl. Síðasta flug TF-ABC var á flugdegi Flugsafns Íslands 18. júní 2022.
Heimild: Flugsafn Íslands.