Líkamsárás og heimilsofbeldi um helgina á Akureyri

Tilkynnt var um slagsmál og líkamsárás í heimahúsi á Akureyri um helgina. Lögregla fór á staðinn, handtók tvo aðila og var annar þeirra færður undir læknishendur á Sjúkrahúsi Akureyrar og eftir aðhlynningu í fangageymslur. Enn fremur var þriðji aðilinn færður á bráðamóttöku til aðhlynningar vegna áverka sem hann hlaut. Málið er í rannsókn.
Lögregla aðstoðaði sjúkralið í nokkrum tilvikum þar sem um veikindi var að ræða og slys við heimahús í einu tilviki.
Á laugardeginum handtók lögregla mann vegna meints heimilisofbeldis og var hann færður í fangageymslur á Akureyri. Málið er í rannsókn.
Aðfararnótt sunnudags var heldur rólegri og færri afskipti af ölvuðum. Þó voru nokkur mál sem komu til kasta lögreglu.
Tilkynnt var meðal annars um menn sem voru að reyna að brjótast inn í herbergi manns í húsi rétt utan Akureyrar. Farið var á staðinn og reyndist þar vera talsverð ölvun og hafði það haft umtalsverð áhrif á hegðunarmynstur þeirra sem þar voru. Lögregla stillti til friðar og kom þeim ölvuðu í skilning um að hegðun þeirra væri nú kannski ekki til mikillar fyrirmyndar. Fengust þeir til að bæta ráð sitt.
Snemma í morgun var svo aðili handtekinn í stigagangi fjölbýlishúss á Akureyri en þar hafði aðilinn gengið berserksgang, brotið rúðu í íbúð óskylds aðila og valdið ónæði og vakið upp íbúa með hátterni sínu. Var hann í afar annarlegu ástandi og var handtekinn og gistir fangageymslur sökum ástands og fyrir rannsókn máls.