Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og vísindamaður með meiru heimsótti mennta- og menningarmálaráðuneytið í byrjun janúar og kom færandi hendi með veggspjöld lestrarátaks síns sem nú er nýhafið. Allir nemendur í 1-10. bekk grunnskólanna geta tekið þátt í átakinu sem nú fer fram í fimmta og síðasta sinn. Nýbreytni er að foreldrar og forráðamenn geta einnig verið með og sent inn sína lestrarmiða fyrir bækur sem þau lesa.

Veggspjöldin munu berast grunnskólum um land allt á næstu dögum en upplýsingar fyrirkomulag átaksins og lestrarmiða má finna á heimasíðu Ævars, www.visindamadur.com. Þátttakendur í lestrarátaki Ævars hafa samtals lesið yfir 230.000 bækur á síðustu fjórum árum.

„Læsi skiptir sköpum, það er lykill að lífsgæðum okkar til framtíðar og ég fagna þessu framtaki Ævars sem hvatt hefur þúsundir krakka til þess að lesa meira,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Mér finnst líka frábært að nú geti fjölskyldan tekið virkan þátt. Foreldrar eru bestu lestrarfyrirmyndir barna sinna og þetta er góð hvatning fyrir lesendur á öllum aldri til að vera dugleg að lesa á nýju ári.“

Heimild: stjornarrad.is