Lesið úr nýrri spennusögu sem gerist í Héðinsfirði

Á Síldarævintýrinu um verslunarmannahelgina á Siglufirði verður lesið úr óútkominni spennusögu eftir Ragnar Jónasson, sem hlotið hefur nafnið Rof og kemur út hjá bókaforlaginu Veröld nú í haust.

Sagan er sjálfstætt framhald af siglfirsku glæpasögunum Snjóblindu og Myrknætti, sem komu út 2010 og 2011, en Snjóblinda vakti mikla athygli þegar hún kom út í Þýskalandi í fyrra hjá þýska útgáfurisanum Fischer, sem hyggst jafnframt gefa Myrknætti út, haustið 2013.

Að sögn Ragnars fjallar nýja skáldsagan um rannsókn á voveiflegu dauðsfalli í Héðinsfirði um miðjan sjötta áratuginn. Siglufjörður er þó sem fyrr miðpunktur rannsóknarinnar, en í upphafi sögunnar hefur bærinn verið settur í einangrun vegna farsóttar. Ungi lögreglumaðurinn, Ari, ákveður að nota tækifærið til þess að rannsaka hið gamla sakamál úr Héðinsfirði, með ófyrirséðum afleiðingum.

Lesið verður úr nýju bókinni í Þjóðlagasetrinu á Siglufirði, föstudaginn 3. ágúst klukkan 17.

Efni innsent: Texti/mynd: Jónas Ragnarsson.