Leikverkið Elska – ástarsögur Norðlendinga

Leikverkið Elska – ástarsögur Norðlendinga verður sýnt í Bergi menningarhúsi á Dalvík þann 2. apríl kl. 20:00.  Leiksýningin er klukkustundar löng og er sýnd án hlés.  Elska segir okkur sögu fimm para sem eru í raun og veru til og búa víðsvegar um norðausturlandið. Þau eru á mismunandi aldri, hafa mismunandi lífsskoðanir og mismunandi áhugamál. Eitt eiga þau þó sameiginlegt og þau eru öll í farsælum ástarsamböndum.

Verkið er unnið orðrétt upp úr viðtölum sem tekin voru við pörin, en leikhópurinn safnaði saman raunverulegum ástarsögum til að nota sem efnivið fyrir verkið. Því er þetta hreinræktuð heimildarsýning sprottin upp úr okkar umhverfi á norðurhjara veraldar. Sögurnar gætu verið komnar frá nágrönnum þínum, frænkum, frændum, mömmu, pabba, ömmu, afa eða systkinum.

Leikverkið Elska – ástarsögur Norðlendinga hefur verið sýnt víða á Norðurlandi síðustu vikur og mánuði.

Leikarar sýningarinnar, Jóhann Axel Ingólfsson og Jenný Lára Arnórsdóttir, eru bæði menntaðir leikarar sem eru nú búsett á Akureyri. Þau unnu einnig handritið, ásamt leikstjóranum Agnesi Wild.

Handrit: Jenný Lára Arnórsdóttir, Jóhann Axel Ingólfsson og Agnes Wild
Leikstjórn: Agnes Wild
Leikararar: Jenný Lára Arnórsdóttir & Jóhann Axel Ingólfsson
Tónlist: Jóhann Axel Ingólfsson
Leikmynd og búningar: Eva Björg Harðardóttir
Aðstoð við dans og hreyfingar: Katrín Mist Haraldsdóttir
Ljósmyndir: Daníel Starrason
Grafísk hönnun: Vaiva Straukaite
Tæknikeyrsla: Jóhann Pétur Aðalsteinsson