Leikskólinn Tröllaborg í Skagafirði í forvarnarverkefni gegn einelti

Á degi leikskólans 6. febrúar síðastliðinn hófst forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólanum Tröllaborg í Skagafirði með skemmtilegri heimsókn þar sem bangsinn Blær kom upp úr kössum bæði á Hofsósi og Hólum. Á kössunum var kort af Íslandi og leikskólinn merktur inn á kortið.

Bangsinn Blær er hluti af vinaverkefni, námsefni sem leikskólinn keypti af Barnaheill og heitir Vinátta og var þróað í Danmörku þar sem það hefur verið notað síðan 2007. Kannanir í leikskólum sem nota efnið sýna að einelti hefur minnkað til muna en verkefnið byggir á að eineltið sé á ábyrgð hinna fullorðnu sem umgangast börnin dagsdaglega og hafa tækifæri og ber skylda til að fyrirbyggja einelti.

Verkefnið byggir á fjórum grunngildum:

  • Umburðarlyndi: Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.
  • Virðing: Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og virða mismunandi hátterni annarra.
  • Umhyggja: Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.
  • Hugrekki: Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Með verkefninu er gert ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi og þau verði samofin öllu starfi og samskiptum í leikskólasamfélaginu. Allir eru þátttakendur í verkefninu, börn, foreldrar þeirra og starfsmenn leikskólans.