Leikskólinn Árholt tekinn til starfa á Akureyri

Leikskólinn Árholt er tekinn til starfa á Akureyri eftir um sextán ára hlé. Miklar breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu og er aðstaðan öll hin glæsilegasta. Níu börn mættu til leiks og aðlögunar ásamt foreldrum sínum í vikunni. Fyrsta árið er gert ráð fyrir 12 til 14 börnum, niður í 17 mánaða gömul, en í framhaldinu er stefnt að tveimur deildum fyrir 24 börn. Árholt, sem er staðsett við hlið Glerárskóla, er í raun starfrækt og rekið sem deild við leikskólann Tröllaborgir og er skólastjórinn Jakobína Elín Áskelsdóttir.

Löng og rík hefð fyrir skólahaldi

Í Árholti var um árabil starfræktur leikskóli en honum var lokað 2003. Fyrr á þessu ári var ákveðið að ráðast í endurbætur á húsnæðinu með það fyrir augum að taka við yngsta aldursári leikskólabarna. Er þetta liður í áætlun yfirvalda um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Saga skólahalds í húsnæðinu nær aftur til ársins 1937. Glerárskóli var starfræktur í húsnæðinu til ársins 1972. Leikskólahald hófst árið 1974 í tvískiptum skóla sem rúmaði allt að 45 börn í einu. Leikskóli var rekinn í Árholti til ársins 2003 en þá var reksturinn færður í nýjan leikskóla í Naustahverfi.

Eftir að skólahaldi lauk í Árholti var húsnæðið notað sem skólavistun og frístund fyrir grunnskólabörn með fötlun og síðar skammtímavistun. Nú síðast var Akureyrarakademían með aðsetur þar.

Góð aðstaða fyrir nemendur og starfsfólk

Í sumar hafa verið gerðar endurbætur á húsinu svo það henti börnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í leikskóla. Starfsmannaaðstaða hefur verið útbúin, samtalsherbergi, eldhús og fleira, auk þess sem unnið er í að klára útisvæðið.

Heimild: akureyri.is

Forstofan í Árholti

Ljósmynd: Akureyri.is