Leikskálar á Siglufirði fögnuðu 30 ára afmæli í dag.

Leikskólinn Leikskálar var tekinn í notkun haustið 1993. Nú er hann hluti af Leikskóla Fjallabyggðar ásamt Leikhólum í Ólafsfirði frá árinu 2010 eftir sameiningu sveitarfélaganna.

Þegar Leikskálar tóku til starfa var leikskólinn þriggja deilda skóli, með eina deild sem var heilsdagsdeild, en tvær deildir voru tvísettar. Þá komu börn frá kl. 8 – 12 og annar hópur frá kl. 13:00 til 17:00. Árið 2016 var byggt við leikskólann og hann stækkaður og eru deildirnar nú fimm og allar heilsdagsdeildir.

Á Leikskálum er pláss fyrir 90 börn í sveigjanlegri vistun frá fjórum tímum upp í átta og hálfan tíma.

Í tilefni dagsins var fáni dreginn að húni, allir nemendur söfnuðust saman úti og sungu afmælissönginn og lagið í Leikskóla er gaman. Að því loku var farið af stað í skrúðgöngu í kringum leikskólalóðina.