Leikið á Ólafsfjarðarvelli

Fyrsti heimaleikur Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í sumar sem leikinn var á Ólafsfjarðarvelli var í dag og mættu Sindramenn í heimsókn, en þeir þurfa keyra yfir 500 km til að spila þennan leik. Sindri vann báða leikina í fyrra gegn KF 2-1.

KF átti erfiðan leik gegn FH í vikunni og var aðeins gerð ein breyting frá þeim leikmannahópi, en Halldór Logi Hilmarsson byrjaði leikinn en Grétar Áki Bergsson var settur á bekkinn. Sindramenn voru ekkert þreyttir eftir ferðalagið og gerðu tvö mörk í fyrri hálfleik og var staðan 0-2 í hálfleik. Í síðari hálfleik gerðu Sindramenn svo út um leikinn með einu marki og urðu lokatölur 0-3. Gamla brýnið, Auðunn Helgason kom inn á á 76. mínútu fyrir Sindramenn, en þessi fyrrum landsliðsmaður er orðinn 42 ára. KF gerði eina skiptingu í hálfleik, en Halldór Logi fór út af fyrir Grétar Áka. KF er með 1 stig eftir fyrstu fjórar umferðir Íslandsmótsins, skoraði 1 mark og fengið á sig 11.  Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.