Leikhús Akureyrar illa statt

Til greina kemur að hætta rekstri Leikfélags Akureyrar nái það ekki að tryggja áframhaldandi rekstur eftir tugmilljóna halla síðustu ára. Þetta kemur fram í skilyrðum sem Akureyrarbær setur félaginu í samningi sem undirritaður var í dag.

Leikfélag Akureyrar er rekið með stuðningi Akureyrarbæjar en heildarhalli á rekstri félagsins nemur um 70 milljónum króna.

Í dag undirrituðu Akureyrarbær og Leikfélagið samning en þar kemur fram að bærinn muni lána félaginu allt að 30 miljónir fyrirfram af fjárframlagi næsta árs. Lánið er veitt með ákveðnum skilyrðum, meðal annars að gengið verði frá öllum uppsöfnuðum skuldum og lögð fram ný fjárhagsáætlun þar sem sýnt sé fram á hallalausan rekstur.

Að lokinni þeirri vinnu verður tekin ákvörðun um hvort fyrirframgreiðslunni verði breytt í lán til lengra tíma eða hvort stöðva þarf rekstur leikhússins á meðan það er greitt til baka.

„Framhaldið er í raun það að fara ofan í framtíðar rekstrargrundvöll leikhússins og skoða hvort að það sé grundvöllur fyrir því að reka hér atvinnuleikhús til lengri tíma litið,“ sagði Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri að loknum fundinum.

Rúv.is greinir frá.